Ég upplifði höfnun í æsku frá blóðmóður minni og var með stanslausa þrá eftir viðurkenningu. Ég trúði því að ef ég yrði fullkomin þá kæmi hún aftur. Ég var lögð í mikið einelti og var misnotuð í æsku og byrjaði snemma að finna flóttaleiðir. Þær flóttaleiðir fóru stigversnandi, allar tegundir af sjálfskaða og svo þróaði ég með mér átröskun, fullkomnunaráráttan varð sjúk og ég beit frá mér og forðaðist að hleypa fólki að mér. Átröskunin átti mig algjörlega.
Ég vildi ekki sjá hversu slæm áhrif þetta hafði á fólkið mitt. Þetta varð sjúk ást, mér fannst ég ekki eiga neitt gott skilið og sjálfseyðingahvötin tók yfir. Hún endurspeglast svo í sumum sambandanna sem ég hef verið í, en þau voru mjög ofbeldisfull. Í rauninni snérist átröskunin ekki um útlit, heldur stjórn. Tilfinningar sem var of vont að finna; kvíði, einmannaleiki, ótti og höfnun. Þegar ég byrjaði að finna þessar tilfinningar og/eða álag og streitu , var það fyrsta sem gerðist að ég pældi í útlitinu mínu. Sjálfsblekkingin, „ef ég lít svona út, ef ég verð nógu grönn, ef líkami minn yrði nógu tónaður og ég væri bara með þetta fullkomna útlit“, að þá yrði ég hamingjusöm. En þrátt fyrir að ná alltaf markmiðunum varð ég það ekki, það var aldrei nóg. Það sem var í gangi innra með mér hvarf ekki og leyndarmálin sem nöguðu mig ekki heldur. Öll skömmin var þarna ennþá.
Ég byrjaði í sjálfsvinnu 2019 tengt öðrum sjúkdómi, og þá sá ég fyrst hvernig ég var og byrjaði að skilja sjálfa mig og aðra betur, ég fékk líka að sjá að ég bar skömm annarra. Ég get ekki tekið ábyrgð á þeim en ég get tekið ábyrgð á mér. Sumar þessar aðstæður kom ég mér sjálf í. Þegar ég var búin að vinna vel í þessu hafði ég verkfæri á milli handanna og eitthvað byrjaði að breytast innra með mér. Í fyrsta skipti þráði ég hjálp.
Ég fékk þann heiður að fá hjálp frá Átröskunarteyminu, en þar sem ég byrjaði í meðferð árið 2020, Drekaslóð og fleiri stöðum og nýti verkfærin sem ég lærði þar. Stundum fann ég fyrir vonleysi og hafði ekki mikla lífslöngun, en gafst ekki upp. Ég áttaði mig á að allt það slæma sem gerðist í lífi mínu átti ég ekki skilið og ákvað í kjölfarið að vinna í meðvirkninni minni.
Í dag lifi ég góðu lífi. Sjálfvirðingin er meiri og hægt og rólega er ég búin að læra að leyfa góðu fólki í kringum mig að sýna mér ást, kærleika og virðingu. Það getur tekið á, en það lærist. Ég er ekki fullkomin og verð það aldrei. Þegar upp kemur streita og álag í lífinu á ég það til að sökkva í vandamál annarra og sinna ekki sjálfri mér. Þá finn ég stundum fyrir gömlum hegðunarmynstrum og sjálfsniðurrifinu. En það eru miklu fleiri dagar sem ég elska mig.
Þegar á heildarmyndina er litið er mikil og merkjanleg breyting á mínu lífi. Ég get stundað áhugamál sem ég elska, get sýnt kærleika og ást og markt markt fleira. Kem sjálfri mér stöðugt á óvart. Með þessum skrifum er ég að deila minni reynslu, opna fyrir viðkvæm málefni og skila skömminni. Ég er að fyrirgefa sjálfri mér allan skaðann sem ég olli mér og þar af leiðandi batnar hegðun mín gagnvart mínum nánustu.
Ég held áfram að breytast og sýna þeim þakklæti sem horfðu uppá og voru til staðar fyrir mig í erfiðleikum mínum og veikindum. Ég fékk að sjá alla kostina mína og með því að stunda það sem gerir mig ánægða, eitthvað sjálfsdekur eða tíma fyrir mig á hverjum degi þá fá kostirnir að skína. Ég fékk að sjá að ég er frábær, flott og yndisleg kona.