Hugarstríð

Hugarstríð er lokaverkefnið mitt í Ljósmyndunardeild Tækniskólans. 

Þetta er mjög persónulegt verkefni um einstaklingana sem sátu fyrir og sögðu sögu sína.

Hugarstríð er um fólk með sára og erfiða reynslu að baki, tilbúnir að tjá sig og í leiðinni hjálpa öðrum.

Markmiðið er að ná til fólks sem er að fást við svipaða erfiðleika og geta tengt sig við einstaklinginn.

Sýna hvar þau eru í dag og hvaða árangri þau hafa náð í sínum bata og eru orðin sterk andlega.

Erfitt er að tala um erfiða reynslu eða hluti sem eru tabú og því mikilvægt að opna á umræðuna.

Hér get ég vonandi hjápað fólki að stíga fram og segja frá sinni reynslu.

Með þeirra sögum getum við öll saman hjálpað hvort öðru.


Gudny-5461-Edit-Edit-Edit.jpg

Guðný

Þegar ég var 8-9 ára var ég kynferðislega misnotuð. Maðurinn sem misnotaði mig fannst aldrei. Mörgum árum seinna varð ég aftur fyrir kynferðislegri misnotkun sem endaði með 4 ára ástarsamband við ofbeldismanninn.

Eftir fyrstu misnotkunina forðaðist ég að vera ein með honum. Það varð mun erfiðara eftir að hann flutti inn til mín ásamt óléttu kærustunni sinni, sem var nákomin aðili. Hann fór yfir öll mín mörk og hélt áfram að misnota mig. Eftir marga mánuði gafst ég upp, sjálfsbjargarviðleitnin mín tók við og ég endaði í ástarsamband með honum. Það var auðveldara að vera ástfangin og vilja þessa hluti heldur en að horfast í augu við raunveruleikann. Ég var beitt andlegu-, kynferðislegu, líkamlegu-, fjárhagslegu og stafrænu kynferðisofbeldi á þessu tímabili. Þegar ónæmiskerfið mitt var hrunið og andlega líðan mín var í molum eftir allt sem ég hafði upplifað þá ákvað ég að ég þurfti að komast út. Ég er mjög stolt að hafa komist sjálf út úr sambandinu. Ég fann leið þar sem ég myndi fá hann til að hætta með mér. Ég sagði vinkonu minni frá öllu sem hann var búin að gera. Eins og planað, þá hætti hann með mér daginn eftir.

Ég komst út úr sambandinu 7. Mars 2020 með engan stuðning að hafa frá fjölskyldunni minni. Bataferlið mitt hefur vægast sagt verið langt og erfitt. Ég var svo blind þegar ég kom út úr sambandinu að ég sá ekki ofbeldið sem ég var búin að upplifa í öll þessi ár. Það var hún Halldóra Kröyer, besta vinkona mín, sem hjálpaði mér að opna augun og kæra hann fyrir allt sem hann var búin að gera. Það er rúmlega ár síðan ég komast út úr sambandinu og á þeim tíma hef ég leitað mér hjálpar meðal annars hjá Stígamótum, Bjarkarhlíð, lögreglunni, sálfræðingi, markþjálfara, sérfræðings í heilun á líkama á sál og sjálf hef ég verið að vinna með hugræna atferlismeðferð til að hjálpa mér með daglegt líf.

Ég er á mun betri stað í dag en ég var fyrir ári síðan. Ég er að læra að standa með sjálfri mér, setja mörk og byggja mig upp á nýtt sem sterkari manneskju. Þrátt fyrir þessa ólýsanlegu, erfiðu og flóknu lífsreynslu. Þrátt fyrir að vera með varanlegar líkamlegar- og andlegar skemmdir eftir hann, þá er ég þakklát fyrir að hafa gengið í gegnum þetta. Þetta breytti mér sem manneskju. Ég er sterkari, augun mín opnuðust fyrir svo mörgum hlutum og í framtíðinni mun engin fá að koma svona illa fram við mig. Ég er góð kona og ég á allt gott skilið.

Skilaboðin til þín kæri lesandi, er að segja frá, sama hversu erfitt það er. Ef ég hefði verið nógu sterk og ekki hrædd við að segja frá að þá hefði sagan mín getað endað öðruvísi. Ég vil ljúka minni frásögn með eftirfarandi setningu: „If someone is telling you something, that would make their life more difficult to tell you, then it‘s probably true.„ -Matthew Hussey

Thelma-6917-Edit-Edit.jpg

Thelma

Það er alltaf jafn óraunverulegt að vakna og sofna á hverjum einasta degi við verki en samt sem áður er það minn raunveruleiki.

Ég er 25 ára í dag en get sagt ég hef verið verkjuð alla daga í um það bil 6 ár. Það sem átti að vera lífsreynsla að fara í sjálfboðastarf í Afríku varð svo í raun endalaus barátta við veikindi. Fyrir 6 árum lagði ég af stað til Ghana til að vinna í skóla í mjög fátækum bæ, allt gekk frábærlega eina sem kom upp var að ég fékk sýkingu einhversstaðar og dílað var við það á spítala þar sem fólkið hvorki skyldi mig né ég þau. Eftir heimkomuna var ég alltaf illt í maganum í hvert skiptið sem ég borðaði. Ég geng til læknis í nær 2 ár þar sem þær heimsóknir breytti litlu sem engu, ég varð bara verri. Margt var gert en ekkert breyttist og læknirinn hætti smá saman að svara mér.

Janúar 2018 var fyrsta langa innlögnin af mörgum á LSH og hitt ég þar lækninn minn í dag. Næstu 3 árin varð ég verri með hverjum mánuði, stundum daglega og verkirnir voru orðnir það slæmir að ég byrjaði hægt og rólega að minnka það sem fór ofan í mig, því það var hreinlega ekki þess virði. Endalausar rannsóknir, blóðprufur, skoðanir og ekkert fannst. Ég hef verið óvinnufær í um 2 ár en kláraði þó tvær gráður úr HR 2020.

Ég var nánast hætt að borða þótt mig langaði ekkert meira en að borða, ég lifði á um það bil 500 kcal á dag þar til ég hætti að geta haldið þessu litla niðri og verkirnir urðu óbærilegir. Ég var að horfa á sjálfan mig hverfa, orðin grá í andliti, allt orðið of mikið og dagarnir einkenndust af engri orku, liggja uppí rúmi osfrv.

Hins vegar lít ég ekkert endilega út fyrir að vera veik. Fyrir mánuði síðan fékk ég sondu, ég dæli næringu í gegnum hana en samt sem áður eru verkirnir alltaf jafn slæmir. Mér er sama þegar fólk starir á mig, því þetta gefur mér einhverja smá von. Ég spyr mig oft ”afhverju ég?” Jákvæðni er eitthvað sem ég reyni að tileinka mér alla daga. Auðvitað koma mjög erfiðir dagar inn á milli og sjálfsvorkunin tekur völdin, en það er betra að vera jákvæður, það er betra en að láta neikvæðni draga sig niður.

Ég er ennþá veik og enginn veit afhverju, ekki ég, ekki fjölskyldan mín, vinir eða læknar en ég trúi á að einhversskonar lausn eða meðhöndlun mun banka uppá. Heilsa manns er engan veginn sjálfgefin og ég hef lært að meta virkilega mikið hvað andlega heilsan mín er góð þótt líkamlega heilsan sé það ekki. Maður lifir einn dag í einu og hver dagur er endalaust klifur upp bratt fjall í engu skyggni. Gott er að muna að reyna að gera allt sem maður mögulega getur þótt það sé krefjandi og ekki gefast upp. Þótt ég hef vanist þessu lífi og vanist því að ég get alls ekki allt eins og er þá er mjög erfitt að horfa uppá samfélag sem snýst í raun um að borða, en einn daginn breytist það kannski.

 
Aníta-7412-Edit.jpg

Aníta

Sagan mín kemur í sjálfu sér ekki út frá neinu einu áfalli, heldur mörgum sem hafa átt stóran þátt í að móta líf mitt.

Til að byrja með þá kem ég frá mjög brotnu heimili. Ég er yngst af þrem systrum og ólst upp með foreldra sem voru annað hvort alkóhólistar, fíklar eða bæði. Það var mikil vanræksla á heimilinu og við systurnar þurftum meira og minna að sjá um okkur sjálfar. Frá því ég man eftir mér þá samanstóðu helgarnar mínar af því að vera í partýum með mömmu minni eða vera skilin eftir ein heima á meðan hún var að skemmta sér sem entist stundum dögunum saman.

Ég var lögð í andlegt og líkamlegt einelti frá því ég var í leikskóla og út alla grunnskólagönguna mína, bæði í skólanum og heima fyrir af eldri systrum mínum. Þegar ég er í kringum 12 ára og eftir margra ára vanrækslu þegar kom að matarræði þá þróaði ég með mér átkastaröskun.

Þegar ég var 15 ára þá var ég kynferðislega misnotuð af besta vini mínum á meðan ég var sofandi og mér hótað barsmíðum ef ég segði frá sem varð til þess að ég fór að loka mig mikið af. Ég lenti í slæmu bílslysi þegar ég var 19 ára gömul og er með varanleg meiðsl eftir það sem hrjá mig í daglegu lífi. Ég ákvað að flytja til Ástralíu ári seinna en kom heim tæpum 2 árum síðar, því ég bjó við mikið heimilisofbeldi sem endaði með nálgunarbanni. Læknarnir á bráðamóttökunni sem ég var vön að fara hringdu á lögregluna og tilkynntu ofbeldið eftir að hann lamdi mig enn eina ferðina.

Árið 2016 greinist ég svo með jaðarpersónuleikaröskun (bpd) og svefnsjúkdóm. Ég var sett á biðlista og komst loksins að í meðferð við bpd. Í þeirri meðferð kom loksins upp að ég er með átkastaröskun og ég fór einnig í meðferð við henni. Í 15 ár hafði ég haldið að svona væru bara matarvenjur hjá öllum og að öllum liði bara svona illa þegar kæmi að mat.

Besti vinur minn lést í bílslysi sama ár aðeins 17 ára gamall. Á þessum tíma átti ég maka og vorum við saman í 3 ár. Hann beitti mig miklu andlegu ofbeldi og í dag er ég hjá Kvennaathvarfinu til að vinna úr því. Svo fór ég loksins í kviðholsspeglun í fyrra og var greind með Endómetríósu eftir mörg ár að berjast við kerfið. Ég tel mig hafa vera mjög heppna með úrræði og á yndislegan sálfræðing sem hefur staðið við bakið á mér síðan ég var 16 ára gömul og á ég henni lífið mitt að þakka. Ef ég hefði ekki fengið stuðninginn og hjálpina frá henni þá væri ég líklegast löngu búin að gefast upp.

Hvítabandið er einnig frábær staður sem því miður ekki nógu margir vita af og hefur hjálpað mér endalaust mikið með persónuleikaröskunina mína og átkastaröskunina mína. Ég var hjá Virk í endurhæfingu samhliða þessu öllu saman og þó það hafi ekki alltaf gengið vel þá gafst ég sem betur fer ekki upp.

Í dag vinn ég í félagsmiðstöð og hef gert í tæp þrjú ár, ég er í skóla og mun útskrifast sem rennismiður eftir 1 ár og ég er svo stolt af sjálfri mér að vera á þeim stað sem ég er í dag. Það eru ekki allir dagar auðveldir, en ég er búin að læra að taka einn dag í einu því það er í sjálfu sér ekkert annað sem maður getur gert þar sem maður stjórnar hvorki fortíðinni né framtíðinni, bara nútíðinni.

Hallgrímur-7084-Edit.jpg

Hallgrímur

Þetta byrjaði þegar ég kem heim frá Englandi 17 ára gamall og flyt til mömmu minnar.

Ég byrja að umgangast röngum félagsskap sem leiddi af óreglu og fíkniefnanorkun. Ég fór að fikta smá í kókaíni og spítti, ekkert samt „alvarleika“, en fljótlega var ég orðin fastagestur hjá lögregluni í Keflavík.

Ákveðnir atburðir áttu sér stað, eitt leiddi af öðru og endanum framdi ég glæp. Eftir mikil slagsmál og streitu milli míns og einn aðila ýtti ég honum af svölum. Lögreglan kom og var ég handtekin og ég endaði í fangelsi. Ég var dæmdur í 18 mánaða fangelsi.

Áður en afplánun hófst hitti ég konu sem hafði góð áhrif á mig og í kjölfarið fór ég að rækta samband við elsta son minn.

Að sitja í fangelsi fékk mig til að hugsa aðeins meira og sjá hlutina í réttu ljósi og líka að endurspegla sjálfan mig. Ég sá að það að sitja inni hvað það hafði mikil áhrif á fjölskylduna mína eins og mömmu og pabba og systkyni mín. Þetta var sjokk fyrir þau öll. Eftir afplánun nokkurm árum seinna eignast ég mín tvö yngri börn með stuttu millibili og giftist konunni minni. Þá er ég líka kominn í gott samband við elsta soninn og reyni að skapa gott líf með þeim. Eftir það hef ég haldið mér á strikinu.

Árið 2015 missti ég móðir mína en hún var besta vinkona mín, kletturinn minn og mín stöð og stytta. Þetta tók virkilega á mig að ég hvarf eiginlega inn í sjálfan mig og varð þunglyndur. Um einu og hálfu ári seinna missi ég líka stjúpmóðir mína og varð ég dofinn eftir allt þetta. Þetta er með því erfiðasta sem ég hef gengið í gegnum að missa tvær mömmur með stuttu millibili. Ég fékk sem betur fer mikinn stuðning frá systkinum mínum og við stóðum mikið saman. Það bjargað mér.

Í dag er ég fráskilin en er í mjög góðu samabandi við börnin mín og mína fyrrverandi. Ég hef unnið mikið í mínum málum og er ég með góðri konu í dag og stunda sjómennsku.

Ekki hætta í skóla, veljið réttu vinina, og hafið fólk í kringum ykkur sem er annt um ykkur og sama hvað á bjátar á...ekki gefast upp.

 
Embla-5873-Edit.jpg

Embla

Ég upplifði höfnun í æsku frá blóðmóður minni og var með stanslausa þrá eftir viðurkenningu. Ég trúði því að ef ég yrði fullkomin þá kæmi hún aftur. Ég var lögð í mikið einelti og var misnotuð í æsku og byrjaði snemma að finna flóttaleiðir. Þær flóttaleiðir fóru stigversnandi, allar tegundir af sjálfskaða og svo þróaði ég með mér átröskun, fullkomnunaráráttan varð sjúk og ég beit frá mér og forðaðist að hleypa fólki að mér. Átröskunin átti mig algjörlega.

Ég vildi ekki sjá hversu slæm áhrif þetta hafði á fólkið mitt. Þetta varð sjúk ást, mér fannst ég ekki eiga neitt gott skilið og sjálfseyðingahvötin tók yfir. Hún endurspeglast svo í sumum sambandanna sem ég hef verið í, en þau voru mjög ofbeldisfull. Í rauninni snérist átröskunin ekki um útlit, heldur stjórn. Tilfinningar sem var of vont að finna; kvíði, einmannaleiki, ótti og höfnun. Þegar ég byrjaði að finna þessar tilfinningar og/eða álag og streitu , var það fyrsta sem gerðist að ég pældi í útlitinu mínu. Sjálfsblekkingin, „ef ég lít svona út, ef ég verð nógu grönn, ef líkami minn yrði nógu tónaður og ég væri bara með þetta fullkomna útlit“, að þá yrði ég hamingjusöm. En þrátt fyrir að ná alltaf markmiðunum varð ég það ekki, það var aldrei nóg. Það sem var í gangi innra með mér hvarf ekki og leyndarmálin sem nöguðu mig ekki heldur. Öll skömmin var þarna ennþá.

Ég byrjaði í sjálfsvinnu 2019 tengt öðrum sjúkdómi, og þá sá ég fyrst hvernig ég var og byrjaði að skilja sjálfa mig og aðra betur, ég fékk líka að sjá að ég bar skömm annarra. Ég get ekki tekið ábyrgð á þeim en ég get tekið ábyrgð á mér. Sumar þessar aðstæður kom ég mér sjálf í. Þegar ég var búin að vinna vel í þessu hafði ég verkfæri á milli handanna og eitthvað byrjaði að breytast innra með mér. Í fyrsta skipti þráði ég hjálp.

Ég fékk þann heiður að fá hjálp frá Átröskunarteyminu, en þar sem ég byrjaði í meðferð árið 2020, Drekaslóð og fleiri stöðum og nýti verkfærin sem ég lærði þar. Stundum fann ég fyrir vonleysi og hafði ekki mikla lífslöngun, en gafst ekki upp. Ég áttaði mig á að allt það slæma sem gerðist í lífi mínu átti ég ekki skilið og ákvað í kjölfarið að vinna í meðvirkninni minni.

Í dag lifi ég góðu lífi. Sjálfvirðingin er meiri og hægt og rólega er ég búin að læra að leyfa góðu fólki í kringum mig að sýna mér ást, kærleika og virðingu. Það getur tekið á, en það lærist. Ég er ekki fullkomin og verð það aldrei. Þegar upp kemur streita og álag í lífinu á ég það til að sökkva í vandamál annarra og sinna ekki sjálfri mér. Þá finn ég stundum fyrir gömlum hegðunarmynstrum og sjálfsniðurrifinu. En það eru miklu fleiri dagar sem ég elska mig.

Þegar á heildarmyndina er litið er mikil og merkjanleg breyting á mínu lífi. Ég get stundað áhugamál sem ég elska, get sýnt kærleika og ást og markt markt fleira. Kem sjálfri mér stöðugt á óvart. Með þessum skrifum er ég að deila minni reynslu, opna fyrir viðkvæm málefni og skila skömminni. Ég er að fyrirgefa sjálfri mér allan skaðann sem ég olli mér og þar af leiðandi batnar hegðun mín gagnvart mínum nánustu.

Ég held áfram að breytast og sýna þeim þakklæti sem horfðu uppá og voru til staðar fyrir mig í erfiðleikum mínum og veikindum. Ég fékk að sjá alla kostina mína og með því að stunda það sem gerir mig ánægða, eitthvað sjálfsdekur eða tíma fyrir mig á hverjum degi þá fá kostirnir að skína. Ég fékk að sjá að ég er frábær, flott og yndisleg kona.

Ástý-6647-Edit.jpg

Ástý

Það sem átti að vera frábær útilega með vinahópi um Hvítasunnuhelgi, endaði með þyrluflugi á spítala, langri dvöl á gjörgæslu og erfiðum næstu árum.

Það var rosalegt að vera 23 ára og heyra frá læknum að það að geta gengið aftur og svo í framhaldi af því að barneignir væru eitthvað sem ég skyldi ekki binda vonir við - skellurinn var þvílíkur að upp frá þeim degi var samblanda af vantrú á þessar nýju aðstæður, þrjóska og ákveðni það eina sem hélt mér "gangandi", það skyldi sko enginn segja mér hvað ég gæti eða gæti ekki gert.

Föstudaginn um hvítasunnu árið 1998 keyrðum við unga parið, búin að vera saman í 3 mánuði, út úr bænum á Snæfellsnes. Ætlunin var að fara á jökulinn þá helgina. Þar sem við mættum fyrst, fórum við í fjöruferð í fallegu veðri, snérum þaðan trúlofuð. Hittum vini okkar svo á tjaldsvæði ekki fjarri og allir ætluðu í sund. Á leiðinni að lauginni kemur upp bilun í bílnum sem endar með því að bíllinn veltur. Kærastinn handleggsbrotnaði, vinur okkar marðist illa og ég festist undir bílnum. Standbrettið á mikið breytta jeppanum klippti mig næstum í tvennt. Kallað var á lögreglu og þyrlan send að sækja mig.

Eftir að ég var vakin á spítalanum helltist yfir mig sú staðreynd að ég kæmist aldrei nálægt því að verða söm. Þegar verkfall sjúkraliða skall á var ég send heim sem þýddi að mamma þurfti að taka við mér og einnig að enga endurhæfingu var að fá. Fjölskyldan og frábærir vinir komu mér í gegnum erfiða mánuði. Gallsteinaköst, sprunginn botnlangi og samfallin lungu hjálpuðu samt ekki til.

Daglegar göngur, dans og ferðaást kærastans björguðu mér og ári eftir slysið unnum við keppni í samkvæmisdönsum. Við giftum okkur svo það sumar og eignuðumst síðan 2 börn með árs millibili. Með nóg að gera var ekki annað hægt en að byggja upp styrk og þol.

Ég lét örorkuna aldrei stoppa mig og hef ég náð mér í þjálfararéttindi í Pole Fitness og þeirri íþróttaiðkun þakka ég því formi sem ég hef náð í dag. Eftir þau 5 ár er ég eins nálægt því líkamlega formi og ég var í fyrir 23 árum og hægt er að vera. Endalaus vinna og þrautseigja er það sem til þarf því ég ein er minnar gæfu smiður og hef ákveðið að gefast aldrei upp á draumum mínum.

 
Hildur-6111-Edit.jpg

Hildur

Frá því í grunnskóla hef ég alltaf staðið mig mjög vel í öllu sem ég tek mér fyrir hendur. Ég legg mig fram, sýni metnað og fæ góðar einkunnir á sama tíma og ég er á fullu í félagslífi og/eða æfingum. Ég get ekki talið hversu oft ég hef heyrt „ég skil ekki hvernig þú ferð að þessu.“ Það sem fólk veit hins vegar ekki er hvað liggur að baki.

Frá því í grunnskóla hef ég nefnilega glímt við kvíða og vanlíðan. Það var þó ekki fyrr en ég var í unglingadeild sem það fór að verða verulega slæmt. Síðan þá hef ég glímt við mikinn frammistöðukvíða og sjálfsvígshugsanir. Ég set gríðarlega pressu á sjálfa mig við að þurfa að vera framúrskarandi í öllu sem ég tek mér fyrir hendur. Kvíðinn veldur því að ég er sífelt að efast um sjálfa mig og tel mig aldrei vera nógu góða. Það er gífurlega þreytandi og oft nenni ég hreinlega ekki að lifa þessu lífi. Ég fæ bara nóg.

Það er ekki langt síðan að mínir nánustu vinir fengu að heyra af því sem hefur hrjáð mig svona lengi. Mér hefur alltaf fundist erfitt að tala um tilfinningar mínar, ég hef hreint út sagt aldrei gert það. Það var þó léttir að þau vissu loksins. Ég var ekki tilbúin að tala um það þá en þau vissu það að minnsta kosti.

Sumarið 2020 leitaði ég mér svo loks hjálpar. Ég fór í ráðgjafarviðtal hjá Berginu Headspace og eins erfitt og það var létti það gríðarlega á hjartanu. Ég endaði á að fara í nokkur viðtöl og er núna byrjuð í greiningarferli hjá Kvíðameðferðarstöðinni. Það er langur og strembinn vegur framundan og ég kvíði rosalega fyrir komandi ferðalagi. Ég reyni samt að sjá ljósið við endann á göngunum og minni sjálfa mig á að ég get þetta.

Ég veit að ég er sterk en ég er líka ótrúlega heppin. Ég fann áhugamál sem hefur kennt mér að það má gera mistök, þannig lærum við. Polesport á stóran stað í hjarta mínu. Ég er umkringd svo góðu fólki sem hefur stutt svo rosalega vel við mig. Ég á sérstaklega einni manneskju það að þakka. Hann studdi mig og hvatti til að leita mér hjálpar. Ég verð honum ævinlega þakklát.

Ef að þú glímir við andlega erfiðleika vona ég að þú finnir styrk til að leita þér hjálpar, eins erfitt og það getur verið. Ég vona að þú finnir styrk til að tala við einhvern, hvort sem það er vinur, ættingi eða sérfræðingur. Þú átt það skilið. Þú átt skilið að finna innri ró og lifa þínu lífi á þínum forsendum.

Þú getur það, ég veit það því að ég gat það. Djöfull er ég stolt af mér.

Gréta-7844-Edit.jpg

Gréta

Lífið er heldur betur óútreiknanlegt.

Meðgangan hafði gengið ótrúlega vel fram að 20 vikna sónar en þá kom í ljós að litli kúturinn okkar var alvarlega vaxtarskertur. Í kjölfarið fórum við strax í ýmsar rannsóknir til að finna orsök vaxtarskerðingarinnar en þær komu allar vel út. Við fórum vikulega í sónar ásamt því að hitta ljósmóður líka 1x í viku. Í hverjum einasta sónartíma héldum við í vonina að hann væri að stækka nægilega mikið, en vöxturinn var of hægur og lítill.

Eftir 28 vikna meðgöngu, þegar við mættum í enn einn sónar tímann, var litla hjartað hætt að slá. 25.október 2018 fæddist yndislegur fullkominn lítill strákur sem fékk nafnið Hinrik Leó Ragnarsson. Hinrik merkir sá sem stjórnar öllu, sem hann Hinni okkar sannarlega gerði og Leó, því hann barðist eins og ljón fram að síðustu andartökunum. Síðar kom í ljós að blóðtappi hafði myndast í afturhluta fylgjunnar sem var ekki sjáanlegur með sónarskoðunum.

Eftir dauða Hinriks tók við mikið og erfitt sorgarferli. Ekkert foreldri á að þurfa að syrgja barnið sitt. Mér fannst tilgangur lífsins hverfa þegar Leó litli dó. Allt varð tómlegt og ekkert náði að veita manni lífsins hamingju. Það vantaði alltaf eitthvað. Þetta er tilfinningarússibani þessi sorg, en sorg er ekki bara ein tilfinning.

Maður upplifir:
Reiði: „Afhverju gerðist þetta fyrir okkur?“
Vanmáttur: Við gátum ekkert gert til að breyta ástandinu og hvernig þetta fór.
Óöryggi: Maður vissi aldrei hvernig þetta myndi enda.
Gleði: Gleði að sjá litla kútinn okkar beint eftir fæðingu.
Söknuður: Guð minn góður hvað ég sakna hans mikið.

Að mínu mati eru þetta allt eðlilegar tilfinningar eftir missi barns. Um leið og maður fær jákvætt óléttupróf að þá breytist lífið. Litla krílið manns er strax orðið hluti af manni. Lífið og sorgin er algjör rússibani. Svo fallegt. En á sama tíma getur það orðið ótrúlega sárt og erfitt.

Allar þessar tilfinningar sem ég hef upplifað eftir missinn okkar hafa mótað mig til framtíðar. Ég brotnaði mörgum sinnum niður. En ég náði að byggja mig líka upp. Það tók tíma, en það tókst. Ég á yndislegan mann, yndislegt bakland og svo leitaði ég mér hjálpar. Þetta er búið að vera langt verkefni og mun þetta vera verkefni allt mitt líf. Hinrik Leó hefur gert mig að fallegri, betri og þakklátari manneskju. Hann hefur breytt mér til hins betra. Einn litill gaur. Hann breytti ekki bara mér, heldur svo mörgum öðrum í kringum mig.

Leyfðu minningunni um barnið þitt að lifa. Fagnaðu barninu þínu. Leyfðu þér að tala um það. Þessi börn sem fæðast inn í þennan heim og lifa allt of stutt hafa svo miklu meiri áhrif á líf margra en maður heldur. Leitaðu þér hjálpar. Prestar voru mín stöð og stytta fyrstu mánuðina eftir að Hinni fæddist og svo í kjölfarið fór ég til sálfræðings.

Andlega heilsan manns verður að vera í fyrsta sæti.

 
Vaka-7755-Edit.jpg

Vaka

Það er von. Það er ljós og ég sé það. Ég gat ekki séð það mjög lengi og gafst nánast upp. Ég var þreytt, andlega þreytt, en ljósið kom.

Þetta er sagan mín.. á mínum 36 árum hef ég grátið meira en brosið og hlegið.

Ég fæddist með hjartagalla, hef farið í tvær hjartaaðgerðir og tvær þræðingar.
Ég hef ávallt átt erfitt með að tjá mig og tengjast fólki.
Ég reyndi sífellt að falla inn í hópinn og geri það ennþá dag í dag.
Ég vátti bæði erfitt með og var lengi að sætta mig við það að vera "sjúklingur".
Ég setti upp grímuna og vildi vera einhver allt önnur. Vildi vera sú sem væri heilbrigð og ávallt brosandi.

Með aldrinum fór maður að vera meðvitaðari um sjálfa sig og langaði að gera allt í heiminum. Draumurinn var að ljúka námi og komast á betri stað andlega. Sleppa grímunni og vera ég sjálf loksins.

Ég eignaðist gullfallega stelpu árið 2011 og lífið varð betra en kvíðin og þunglyndið jókst.
Ég elskaði að vera móðir en það vantaði samt alltaf eitthvað.

Ég fékk aðstoð eftir erfiða hjartaaðgerð árið 2016 þar sem ég endaði óvænt í bráðaaðgerð og þar sá ég fyrst ljósið og tækifærin í lífinu. Þegar ég var búin að jafna mig eftir aðgerðina sá ég að þetta hlaut að tákna eitthvað. Tákn um að ég ætti eftir að vera betri og vera til staðar fyrir dóttur mína. Ég þurfti bara biðja um aðstoð og fella grímuna. Sem ég loksins gerði.

Ég fór í Virk og þaðan í náms og starfsendurhæfingu hjá Janus, sálfræðiviðtöl, uppbyggingu og lét drauma mína rætast. Sigraðist á óttanum og hræðslu við að ljúka námi sem síðan tókst og kláraði loks Grafíska Miðlun og héld áfram að finna út hver ég er.

Ég gefst ekki upp, ég mun berjast áfram og sýna stelpunni minni: Að sama hvað, sama hver þú ert, getur þú allt. Ekki gefast upp og vertu þú sjálf.

Í dag er gríman farin, nú er það bara ég sjálf sem fólk mætir. Það er von. Þú þarft bara trúa og treysta.

Í dag líður mér betur.

 
Andrea-6593-Edit.jpg

Andrea

Fyrir níu árum var ég stödd í heimókn í Bretlandi þar sem ég ólst upp. Kvöldið fyrri brottför fékk ég mér nokkra drykki með vinum. Það átti eftir að enda sem versta martröð lífs míns.

Ég þáði far hjá vini vinkonu minnar sem braut á mér, hann nauðgaði mér. Ég sagði nei hann hlustaði ekki. Ég kærði daginn eftir, fékk neiðarhnapp með mér heim og endaði á spítala. Daginn sem ég fékk að vita að málinu hefði verið vísað frá leið mér eins og ég væri að endurupplifa nauðgunina, enda er mörgum brotaþolum leiðbent í að kæra ekki, sem segir hvar allt um hvar við erum stödd með svona málefni. Sorglegt að staðan sé sú að þú ert með næg sönnunargögn eins og lögreglan vitnaði í mitt mál, samt vísað frá.

 Ég var fimm ár of sein að leita mér hjálpar því ég skammaðist mín, sem er eðlileg tilfinning brotaþola sem ég vissi ekki á þeim tíma. Ég sópaði öllu undir teppið, hélt mér uppteknri í verkefnum og ræktinni. Maður heldur að þegar líkamlegu sárin gróa er þetta komið en raunin er að sárin á sálinni taka tíma að gróa. Ég leitaði mér hjálpar hjá Stígamótum og er ég afar þakklat fyrir þeirra hjálp og stuðning í gegnum ferlið. Sérstaklega að læra að þetta var ekki mér að kenna og hvernig á að lifa með svona áfalli. Stígamót hafa svo sannarlega kennt mér margt.

Með minni reynslu og vegferð vonast ég til að geta hjálpað öðrum í þessum erfiðu sporum sem enginn á að þurfa ganga í gegnum. Að segja frá og leita sér hjálpar sem fyrst og ekki sópa undir teppið eins og ég gerði. Ég er ekki skömmin og ég er ekki áfallið sem ég varð fyrir, en í dag veit ég að ég er sterk manneskja og get yfirstígið allt fyrst ég gat yfirstígið svona áfall.

Annars er starf stígamóta svo magnað og er ég þeim afar þakklát.